Óshyrna í Bolungarvík

Tignarleg Óshyrnan rís 656 metra yfir sjávarmál með snarbrattar hlíðar prýddar formfögrum klettadröngum. Hún stendur við mynni Bolungarvíkur og er jafnframt ysti hluti Óshlíðar og eitt þekktasta kennileiti sjófarenda í gegnum aldirnar. Í Óshyrnu er strandklettur sem nefndur er Þuríður, kenndur við landnámskonuna Þuríði Sundafylli, sem kom til Íslands árið 940 og bjó á Vatnsnesi í Syðridal, inn af Bolungarvík. Hún og förunautar hennar námu Bolungarvík alla og Skálavík.

 

Fáir en mikilvægir litatónar skapa ákveðna stemningu og beina athygli áhorfanda að sjálfu myndefninu. Við sjáum upphaf vetrar þegar fyrstu snjóa gætir í fjöllum. Þá kvikna væntingar með okkur um fjölda skemmtilegra ævintýra í vetrarríki Vestfjarða. 

 

Hún er líka táknræn fyrir mikilfengleika vestfirskra fjalla og minnir okkur á að ferðast gætilega um þau. Veðrið er dramatískt, tindurinn umvafinn skýjum og um tröllkennda drangana leikur dulúðleg þoka. Með árunum hefur einmitt kaldranaleg náttúran aukið skilning okkar á fegurð Vestfjarða, eiginleikum þeirra og möguleikum. 


Myndinni er ætlað að vera tímalaus rétt eins og fjallið og er þess vegna unnin með grófkornóttri áferð til að líkja eftir gömlu filmumyndavélunum. Hún gæti allt eins verið frá upphafi síðustu aldar eða þaðan af eldri.


Share by: