Kaldalón við Ísafjarðardjúp

Kaldalón er við Snæfjallaströnd, norðanmegin í Ísafjarðardjúpi. Svæðið er í raun djúpur dalur sem myndaðist við bráðnun Lónsjökuls, eins jökulsporða Drangajökuls. Frá jökli til sjávar liggur jökuláin Mórilla með mögnuðu æðakerfi árstrauma þar sem saman koma ólíkar uppsprettur af þrennum toga: Jökulár úr Drangajökli, lindár úr Votubjörgum, Trymbilsstaðarhlíð, Háafellshjöllum og Lónseyrarhlíð sem ramma dalinn inn, og svo lækir úr litsterkum seftjörnum hér og hvar við frjósamar hlíðarnar.

 

Þetta er loftmynd úr 350 metra hæð af árkerfi Mórillu, við sólsetur í ágústmánuði. Þegar horft er úr svo mikilli hæð eru stór björg sem sandkorn að sjá.

 

Leirkenndur botninn skartar margvíslegum jarðlitum. Litapallettan spannar jafnt heita og kalda liti, allt frá brúnum, ljósrauðum og appelsínugulum tónum yfir í gráa- og pastelbláa liti. Kaldalón er einstakt útivistarsvæði. Gaman er að ganga inn að jökli með gott nesti og njóta alls þess sem fyrir augu ber. Að vetrarlagi er tilvalið að njóta svæðisins á ferðaskíðum, þá er dýrðin ekki síðri.

 

Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946), læknir, náttúruunnandi, tónskáld og fagurkeri, bjó í Kaldalóni og undi sér þar afar vel. Í lagasmíðum sínum naut hann innblásturs náttúrunnar og eftir hann liggja mörg rómuðustu lög okkar, s.s. Ísland ögrum skorið, Ave María, Þú eina hjartans yndið mitt, Ég lít í anda liðna tíð og nærri 90 aðrar perlur, flestar alþekktar enn í dag.


Share by: